30. janúar 2004

You are what you eat!

Í dag er ég súkkulaði og hafragrautur :D Lífið bara gerist ekki betra!!

Fannst hreinlega ég verða að deila þessu með ykkur...

Ferðalög

Austurríki
Belgía
Danmörk
England
Frakkland
Grikkland
Holland
Ísland
Ítalía
Lúxembúrg
Portúgal
Spánn
Sviss
Tyrkland
Þýskaland

Hmmm.....vonaði nú að þetta liti aðeins viðameira út....Ég ætti kannski að íhuga næst að ferðast eitthvað aðeins út fyrir þessa klessu á kortinu....

Einhverjar tillögur?



Hér er hægt að fiffa svona


24. janúar 2004

Spennó!! Já, eða ekki....

Jæja, þá er það bara vinna í kvöld, það verður áhugavert í minnsta lagi!.....rétt búin að jafna mig eftir fimmtudagskvöldið þar sem ég komst að því að það er ekki sérstaklega skynsamlegt að koma innfyrir 2ja metra radíus af Housum og ginflöskunni hans þegar maður er að djamma, það er nokkuð ljóst!

Vaknaði samt ótrúlega spræk 5 tímum eftir að ég hafði komið heim og dreif mig á lappir og í lestina til Århus þar sem ég sat, angandi eins og bruggverksmiðja, allan eftirmiðdaginn fyrir hönd skólans, á námskynningu sem var þar í ráðhúsinu. Gaman að því!
Við Erla vorum samt alveg að meika það þarna.....höfðum í alveg nógu að snúast við að láta okkur leiðast og vorum orðnar svo þreyttar eftir að hafa gert nákvæmlega ekkert í heila 4 tíma að við fórum beinustu leið heim og grjótsofnuðum í sófunum okkar......
.......og ég er eiginlega ekki búin að gera neitt af viti síðan.

Æ vá, þegar ég er búin að fjarlægja og ritskoða allt sem ég kann ekki við að hafa opinbert, þá er eiginlega ótrúlega lítið spennandi að vera ég.....hmmmm

21. janúar 2004

Speki dagsins...

Ef maður heldur að maður sé orðinn geðveikur, þá er maður ekki geðveikur!

Enda eins gott!! Fjúkk!!

19. janúar 2004

Dæmigert alveg!

Jæja, ekki er maður fyrr fluttur í bakaríið en maður er byrjaður að baka vandræði.....
Svona er maður mikið kjánaprik ;)
Get svo svarið að þetta hlýtur að vera einhver krónísk heilabilun sem á sér stað því þetta virðist vera að gerast með jöfnu millibili núorðið....sýnist jafnvel einkennin vera að versna :/

Juminn, hvar endar þetta eiginlega?

Búið að boða til krísufundar í sálufélaginu.....


17. janúar 2004

Muniði eftir fyrstu ástinni...?

.....þegar ekkert annað komst fyrir í höfðinu á manni og viðkomandi var bara einfaldlega fullkominn í alla staði að manni fannst.....
...fiðrildin í maganum hættu ekki að flögra og manni varð illt í maganum af spenningi í hvert sinn sem talað var um hann/hana.....
...sæluvíman sem fylgdi því að vera í sama herbergi og viðkomandi jaðraði við alsælu og þegar/ef maður var svo kysstur af þessum einstaklingi, ætlaði allt um koll að keyra inní manni og yfirlið var á næsta leiti......
.....maður fékk hreinlega aðsvif ef maður sá hann/hana á Laugaveginum og hefði hiklaust fylgt viðkomandi á hjara veraldar (já, og gerði það jafnvel oftar en einu sinni) ef ósk um slíkt var borin upp.....

Muniði eftir þessu??? mmmmmm.......

Nú leyfi ég mér að gera ráð fyrir því að þeir sem lesi þetta séu allir að minnsta kosti með í kringum 25 ár á bakinu......þannig að ég spyr: Hvað er langt síðan þið funduð fyrir þessu síðast?? Man einhver eftir því að hafa upplifað þessa tilfinningu eftir tvítugt? Eftir átján?
Er svo komið að búið er að berja svo óhóflegu magni af skynsemi, þroska og þeirri hræðilegu staðreynd að enginn sé fullkominn, svo harkalega inn í hausinn á manni að það sé ekki séns í helvíti að upplifa þetta aftur??

Ætli maður sé orðinn of gamall til að verða ástfanginn??

14. janúar 2004

Bissí bissí bissí....

Enginn tími til að blogga, búin að setja í túrbógírinn og prjóna eins og brjálæðingur, íbúðin enn ekki komin í stand, á að skila verkefninu á föstudaginn......SJITT!!

Leiter...

10. janúar 2004

Komin "heim"!

Jæja, þá er jólafríið búið og ég komin endurnærð aftur til Danaveldisins. Æ, hvað það var gott að koma heim, jafnvel þó ég hafi staðið mig að því að hugsa með löngun til þess að það væri auð jörð í Viborg í stað snjóskaflanna og hefði næstum verið búin að beila á öllu og taka bara fyrsta flug til Kastrup á tímabili.
Ákaflega fegin núna að ég gerði það ekki og er sjúklega þakklát fyrir alla vini mína og fjölskyldumeðlimi sem ég náði að hitta og eyða tíma með í fríinu.

Stiklað á stóru....:

Birta: Takk fyrir að vera mannleg! Ég var farin að efast á tímabili, litla ofurkonan mín! Farðu nú samt að fara vel með þig á nýja árinu! Ég elska þig mest!
Bjargvætturinn og có.: Takk fyrir að mér finnist ég alltaf vera komin heim þegar ég kem til ykkar.
Borgarfjarðarfólkið: Takk fyrir að vera fólkið mitt og að ég tali nú ekki um hattinn og eldhúsgræjurnar!!
Diskódísin: Takk fyrir að vera svona sjúklega frábær og sálufélagi í snillinni sem við komum okkur í. Veit hreinlega ekki hvað ég gerði án þín! Og hafðu engar áhyggjur, þú ert alltaf langflottust, sama hvar þú ert og þetta verður allt í lagi!!! Grát-Liljurnar og öll hin svakalega important félögin og klúbbarnir sem eru viðeigandi hverju sinni halda ótrauð áfram starfsemi sinni gegnum msn ljúfan mín og neyðarnúmerið er alltaf opið ...bara 00-45 fyrir framan núna ;)
Eiki: Takk fyrir alla tónlistina og hjálpina og að þola endalausan "nördaskap" í stóru frænkunni ;)
Flóttakonan: Ain´t no sunshine when she´s gone.......Takk fyrir að koma til landsins!! Það var svoooo gott að sjá þig og knúsa þig. Æ lov jú !!
Helgi feiti: Takk fyrir að skilja hvað ég var að meina og að allt sé kúl.
Kári klári: Til hamingju með útskriftina og nýju vinnuna, þú ert frábærastur! Takk fyrir að vera sá sem ég get litið upp til!
Kvenfélagskonurnar: Þið eruð náttlega svo ólýsanlega miklir gullmolar að ég veit ekki hvað ég gerði án ykkar!! Takk fyrir allt í fortíðinni, núinu og framtíðinni!
Kynvillingurinn: Takk fyrir að vera alltaf þú sjálf og fyrir að vera hetjan mín! Langar alltaf að verða betri manneskja þegar ég hef hitt þig. Veitir ekki af því núna ;) Vona að við getum gert alvöru úr hittingnum um páskana.
Logan: Takk fyrir fyrsta flokks samkvæmi á gamlárs og fyrir að vera vinur minn!
Meðvirki maðurinn: Takk fyrir að leyfa mér að vera ég! Vitaborgaraspjall í þínu kompaníi klikkar ekki, það er deginum ljósara!
Muzak: Takk fyrir allt frábæra undirspilið og að vera svona mikill gleðigjafi. Já og síðast en ekki síst fyrir að hafa haft vit fyrir mér og séð til þess að ég færi heim til mín þarna um kvöldið.
Palli: Takk fyrir spjallið og matinn og minningarnar.
Rannveig og Gísli: Takk fyrir að próvæda samastað fyrir mig og öll partýin.....hehehe
Séra Sigurvin: Takk fyrir að vera til og endalausa þolinmæði í því óvinnandi verki að reyna að koma fyrir mig vitinu!
Siggi Palli: Takk fyrir egótrippið....ég sakna þín líka!
Singunn: Takk fyrir að vera vinkona mín....og genin að sjálfsögðu ;)
Týndi maðurinn: Takk fyrir allt gamalt og gott og takk fyrir farsæla endinn og framhaldið af honum!
Verkfræðingurinn: Kojarinn verður víst að bíða betri tíma.......sjáumst við ekki bara á Hróarskeldu í sumar??


Alveg er ég heppnust í heimi og alveg að tapa mér í dramanu! En iss, þið þolið það alveg ;)

6. janúar 2004

I´m leaving on a jetplane....

...veit reyndar sem betur fer alveg hvenær ég kem aftur :)

Sjáumst um páskana, darlíngs! En svo líklega ekki aftur fyrr en um næstu jól....ja, nema ég verði náttlega á Rimini eða Kanarí eða Benedorm eða eitthvað.....tíhíhí!

En allavega.....nú er það víst blákaldur veruleikinn aftur og ég að fara að keyra út á Keflavík eftir tæpa 2 tíma. Það verður þá í þriðja skipti á sama sólarhringnum sem ég ek þangað! Ég sver það, ég fer að geta rúntað þetta blindandi......sem er kannski hugmynd, maður gæti þá náð smá kríu á leiðinni!

Jæja, ég ætti líklega að fara að drífa mig í að pakka kannski?

4. janúar 2004

Áslaug er að koma! Áslaug er að koma!

Vei vei vei!!
Ofsakæti, hamingja og gleðitár á næsta leiti. Loksins, loksins, loksins er komið að því!!

Flóttakonan mætir á skerið rétt áður en ég yfirgef það og mun ég sækja hana á flugvöllinn annað kvöld eflaust skælandi af gleði og kátínu yfir að sjá hana aftur eftir allan þennan tíma.
Yfirleitt hefur það nefninlega verið ég, en ekki hún, sem hefur yfirgefið landið svo mánuðum skiptir og ég hef þar af leiðandi alltaf getað gengið að henni vísri til sáluhjálpar þegar ég kem til landsins. En undanfarinn allt of langan tíma hefur annað verið uppá teningnum. Gellan bara verið í útlandinu síðan í vor og ég ekki séð af henni tangur né tetur, hvorki í sumarfríinu né haustfríinu. Þetta hefur alveg haft mjög alvarlegar og að ég tali nú ekki um katastrófískar afleiðingar svo ekki sé minna sagt og ég hef af þessum ástæðum ekkert gert af viti síðan gvuð má vita hvenær .....já, síðan í febrúar held ég bara!!
Þetta gengur náttlega ekki, það sér það hver maður!

Erum að hugsa um að nýta þennan litla tíma sem gefst og loka okkur inni hér í dýrabænum annað kvöld með rauðvín og súkkulaði og nokkurra ára birgðir af vasaklútum og tissjúi og reyna eftir bestu getu að vinna upp þessa síðustu mánuði. Og þar sem við erum ekki þekktar fyrir annað en að gera allt það sem við tökum okkur fyrir hendur með einstakri prýði, þá er ekki nokkur efi til í huga mínum um að okkur mun að sjálfsögðu takast það, and then some!

Úff, ég get ekki hamið mig af spenningi........tætaramm taræ taramm!!! :)

2. janúar 2004

Nú árið er liðið í aldanna skaut...

....og aldrei það kemur til baka!

Fullt búið að gerast á þessu ári og margt af því sem ég á eftir að sakna að komi aldrei aftur. En árið í heild sinni er búið að vera bara nokkuð ásættanlegt og lokahnykkurinn til að kveðja það var svo að sjálfsögðu bara til að setja punktinn yfir i-ið því gamlárskvöld var gott kvöld!

Hreindýrasteik í matinn og maginn fylltur þannig að ég er fyrst að verða svöng aftur núna!! Eftir fasta liði eins og venjulega, alvarlega skókrísu, skylduáhorf á skaupið og hið árlega brjálæði sem flugeldauppskotið er, hélt ég svo rakleiðis í sjálfrennireiðina og brunaði af stað í vesturbæinn. Sótti stelpurnar og skutlaðist með þeim aðeins áður en við lögðum leið okkar í Tryggvagötu-gleðina hjá Stebba sem að sjálfsögðu stóð undir öllum okkar væntingum. Stórglæsilegt partý alveg hreint! Kóngurinn klikkar ekki!
Þar sötraði ég Mojito og skemmti mér konunglega með öllu fólkinu sem ég hef ekki hitt síðan í sumar eða enn lengur. Gleði gleði og meiri gleði!

Fórum svo á Grandrokk þar sem Hraun! voru að spila og sýndum snilldartakta á dansgólfinu við Run to the hills og Hímen-lagið!
Svavar og kó: TAKK FYRIR MIG! :D
Alveg er það gaman að vera úti að skemmta sér með nánast alla sem maður þekkir á sama skemmtistaðnum! Þetta gerist varla betra, ég segi það og skrifa ;)

Það eina sem skyggði á kvöldið var náttlega að diskódísina vantaði....alveg saknaði ég þín þó ég hafi gleymt að hringja aftur :/ Bætum bara fyrir það næsta gamlárskvöld á einhverjum svölum í einhverri sólskinsparadís;)

Rétt fyrir kl. 9 að staðartíma Grandrokks var svo aðeins farið að hægjast um og eftir að hafa samviskusamlega hringt af salerni staðarins í suma og tjáð mig um það hversu mikið mér þætti vænt um viðkomandi (rétt eins og tilheyrir undir morgun gamlárskvölda), ákvað ég að nú væri kominn tími á að hypja mig. Við tók ákaflega heilsusamlegt rölt á Tryggvagötuna til að sækja lyklana að heimili mínu, dýrabænum og lagðist ég þvínæst alsæl til svefns og týndist!!

The rest is history ;)

Gleðilegt nýtt ár, lömbin mín og takk fyrir öll þau gömlu!! Rock on! ;)

1. janúar 2004

Æmalæv...!!!

Var að komast að því áðan að ef ég hefði sofið hálftímanum lengur hefði ég líklegast vaknað upp við Víkingasveitina að brjótast inn í íbúðina til mín.
Ég sem svaf bara á mínu græna eyra svefni hinna skemmtanaglöðu, missti semsagt af öllum hasarnum þegar móðir mín elskuleg munstraði nánast alla sem ég þekki í allsherjar leit að mér, þar sem ég hafði ekki látið heyra í mér í dag.

Alltaf gott að vita að maður fengi allavega ekki að liggja lengi í blóði sínu áður en björgunarsveitin væri komin á staðinn.